145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að grípa fjármunina úr loftinu. Það eru margir kostir til að auka tekjuöflun ríkissjóðs sem ríkisstjórnin hefur látið fram hjá sér fara sem ég rakti hér áðan og við getum tekið sérstaka umræðu um. Í frumvarpinu er skýrt tekið fram að það taki bara til bóta almannatrygginga og ástæðan er sú að við viljum leggja fram tillögu sem er framkvæmanleg. Við göngum ekki einu sinni svo langt að segja að allar bætur allra eigi að ná 300 þúsund. Við segjum að bætur þeirra sem eru með heimilisuppbót skuli ná því. Við förum eins hóflega, varlega og skynsamlega í þetta og mögulegt er. En fyrir því eru einfaldlega fordæmi að þegar gerðir eru sérstakir láglaunasamningar sem miða að því að lyfta upp lægstu launum vegna þess að menn telja þau orðin siðferðilega óverjandi lág þá sé sérstakt fjármagn í það veitt. Það gerðum við á árinu 2011 þegar gerðir voru sérstakir láglaunasamningar og þá bættum við samsvarandi fjárhæðum inn í almannatryggingakerfið.

Síðan varðandi það að Samfylkingin hafi með einhverjum sérstökum hætti umfram aðra flokka talað fyrir því að atvinnuleysisbætur ættu að vera í samræmi við lægstu laun þá er það rétt að við höfum ekki séð neina sérstaka skynsemi í sveltistefnu gagnvart atvinnulausum. Og fyrir þeirri kenningu sem hæstv. ráðherra flytur hér um að það sé stórskaðlegt að atvinnuleysisbætur séu nærri lægstu launum, það er kreddukenning sem ekki eru fyrir nokkur efnisleg rök. Við höfum séð atvinnuleysi lækka á Íslandi hröðum skrefum síðustu missiri þrátt fyrir að atvinnuleysisbætur hafi ekki verið undir lægstu launum. Þegar við tókum á t.d. á árinu 2009 og 2010 í niðurskurði þá skárum við ekki niður atvinnuleysisbætur og það er einfaldlega þannig að fyrir því eru sterk efnisleg rök og efnisleg reynsla í öllum löndum að aðrir hvatar skipta meira máli. Atvinnuleysisbætur eiga auðvitað ekki að vera valkostur við launavinnu en það er ekkert sem segir að það að svelta atvinnulaust fólk sé til að hvetja til atvinnuþátttöku.