145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg til í að ræða við hv. þingmann um það hvort að borga eigi fólki einhvern almennan húsnæðisstuðning ef það er það sem hann er að ræða, en vaxtabætur voru fundnar upp vegna þess að vaxtastig í landinu var óbærilegt fyrir fólk og venjulegt fólk ræður ekki við að borga af almennu íbúðarhúsnæði án vaxtabóta. Það sem ríkisstjórnin er að gera núna er að ryðja út úr vaxtabótakerfinu fleiri og fleiri hópum af meðaltekjufólki og þess vegna sjá menn svigrúm upp á 1,5 milljarða í sparnað í vaxtabótum vegna þess að engin viðmiðunarmörk eru hækkuð og meðaltekjufólk er bara skilið eftir á köldum klaka með íslenskt vaxtastig. Hv. þingmaður getur síðan komið og sagt að hann hafi verið með einhverjar aðrar hugmyndir árið 1995, en það eru engar nýjar hugmyndir í fjárlagafrumvarpinu um það hvernig eigi að mæta húsnæðiskostnaði og vanda fólks við að koma sér upp eigin húsnæði á meðaltekjum. Ríkisstjórnin skilur þetta fólk eftir. Hún stóð fyrir skuldamillifærslu sem gagnaðist til dæmis fólki á mjög háum launum með litla sem enga skuldabyrði og sem hefur stórgrætt á fasteignakaupum sínum. Það var ekki hlustað á viðvaranir okkar í því efni og ekki orðið við neinum tillögum okkar um að takmarka skuldamillifærsluna að þessu leyti. Þar voru til dæmis peningar sem hefði verið hægt að nota í viðbótarstuðning við fólk með meðaltekjur.

Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn kemst bara ekki fram hjá því að menn eru að skilja meðaltekjufólk eftir á köldum klaka vegna þess að vaxtabótakerfið er ekki látið mæta þessu fólki. Það væri gaman að heyra frá ríkisstjórninni ef hún er með eitthvert annað kerfi til að styðja fólk til að koma sér þaki yfir höfuðið, en ekki hefur orðið vart við það.