145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Við erum ekkert endilega alltaf sammála um landbúnaðarmálin en samt oftar sammála en margir halda.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því markmiði til lengri tíma að lækka tolla og afnema þá alla vega af hluta af landbúnaðarvörum, þá er ég auðvitað að tala um landbúnaðarvörur sem eru framleiddar á Íslandi. Ég geri mér grein fyrir því að við flytjum inn hrísgrjón og soja og alls konar landbúnaðarafurðir tollalaust en við leggjum tolla á þær landbúnaðarafurðir sem eru í samkeppni við innlenda framleiðslu. Eins og hefur verið komið inn á í ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, þá er í rauninni — nú man ég ekkert hvað það var sem hann sagði sem mér fannst allt í einu svona gáfulegt, en spurningin er sem sagt: Ættum við ekki að byrja að afnema tolla á vörur eins og osta sem ekki eru framleiddir hér og landbúnaðarvörur, gera þetta í einhverjum skrefum til lengri tíma og treysta því að niðurstaðan verði álíka og varð með grænmetið og ylræktina? Sú grein hefur staðið sig nokkuð vel. Íslenskir neytendur vilja frekar íslenska tómata en innflutta, jafnvel þótt þeir séu dýrari, og menn ættu að geta treyst því að gæðin séu það mikil að neytendur muni áfram velja íslenska framleiðslu en þeir hafi samt sem áður möguleika á innfluttum matvælum. Í rauninni mun sú samkeppni alltaf hafa góð áhrif.

Ég mundi vilja vita hvað hv. þingmanni finnst um eitthvert svona plan, eða sér hann bara ekki fyrir sér að við munum yfir höfuð fella niður tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir?