145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:20]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þingmanni að Ísland hafi ekki afl í milliríkjasamningum um tollamál. Það sem ég var að vísa til eru einfaldlega gagnkvæmir viðskiptasamningar. Þá höfum við það vald rétt eins og mótaðilinn, þetta er bara þjóð á móti þjóð eða þjóð á móti ríkjabandalagi, og umræðurnar snúast einfaldlega um skiptihlutfall á markaði og gagnkvæman aðgang. Það hefur hins vegar verið í langan tíma mest verið talað um samninga við Evrópusambandið þar sem Evrópusambandið hefur viljað semja um kíló á móti kílói sem er óskaplega ósanngjörn krafa. Við ættum miklu frekar að tala um hlutfallslegan aðgang því að 300 þúsund manna þjóð sem flytur inn 1 kg af tiltekinni búvöru hefur náttúrlega miklu minni kraft ef hún fær ekki nema 1 kg í staðinn inn á 500 milljón manna markað.

Varðandi spurningu þingmannsins um ljósleiðara þá ætla ég fyrst að segja: Nei, það eru engin vonbrigði hvað teiknað er inn í fjárlagafrumvarpið í þeim málaflokki. Þar eru reyndar ákveðnar úrbætur tilteknar sem byggja á gömlu fjarskiptaáætlun þingsins. Tillaga til þingsályktunar um fjarskiptamál er einfaldlega ekki komin inn í þingið þannig að það er í rauninni ekki búið að útleysa verkefnið, en 300 milljónir sem fara í þá aðferðafræði sem er m.a. lýst í skýrslu sem heitir Ísland ljóstengt eru miklir fjármunir og það miklir fjármunir að þeir munu algjörlega geta dregið vagninn í byrjun þessa stórátaks sem við þurfum að ráðast í. Ég er algjörlega sammála þingmanninum að við getum ekkert beðið með að ákveða það og við verðum að hafa einhverja sýn í því máli.