145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég stíg hér upp til þess að blanda mér aðeins í umræðuna um það hvað gerðist og hverju er að þakka það að við erum að vaxa að nýju. Ég tek undir með þeim sem segja að það sé ekki allt verk þessarar ríkisstjórnar og það er heldur ekki allt verk fyrri ríkisstjórnar í mínum huga. Við skulum ekki gleyma því að það varð hér gríðarleg raungengislækkun, íslenska krónan féll og það var lykilatriði í því að bæta samkeppnisstöðu þjóðarinnar að nýju, skapa fyrirtækjunum skilyrði til að fara að vaxa og var ein forsenda þess að ferðaþjónustan gat tekið jafn kröftuglega við sér og við höfum séð, ein lykilforsendan. Skuldastaða ríkisins var líka lykilatriði í kreppunni. Lág skuldastaða gerði okkur kleift að takast á við kreppuna, að fjármagna hallareksturinn sem varð og að fá aðstoð við öflun erlendra lána. Neyðarlögin gæti ég nefnt líka, grundvallaratriði, farsæl niðurstaða í Icesave-málinu skipti einnig máli. Áherslur fyrri ríkisstjórnar eru hins vegar ekki hafnar yfir gagnrýni, við gagnrýndum þá stefnu, þá ríkisstjórn fyrir að leggjast of þungt á skattahækkunarhliðina og með því hafi tækifærum til að bjarga störfum nokkuð verið fórnað, að batinn hefði getað orðið enn hraðari og við ræddum um þetta allt síðasta kjörtímabil. Síðan þegar kemur að þessari ríkisstjórn verð ég að halda til haga nokkrum miklum áherslubreytingum sem hafa orðið. Ég er til dæmis algjörlega ósammála því að við höfum gert rangt með því að létta byrðum af heimilum og atvinnulífi. Ég er algerlega ósammála því og svo verð ég líka að benda á það að við hækkuðum bankaskattinn upp í tæpa 40 milljarða, sem er m.a. forsenda þess góða afgangs sem er hér þessi missirin. Bankaskatturinn var hækkaður þetta mikið en einungis um helmingur þeirrar fjárhæðar hefur (Forseti hringir.) farið í skuldaaðgerðirnar. Að öðru leyti hefur það komið okkur til góða. Heildaráhrifin af skattaaðgerðunum eru því jákvæð þrátt fyrir að við höfum skapað svigrúm fyrir heimili og atvinnulíf.