145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekkert að veitast að núverandi ríkisstjórn þó að ég færi yfir þetta eins og ég gerði. Ég hef áður úr ræðustóli, m.a. í umræðum um áætlun um afnám gjaldeyrishafta, tekið það sérstaklega fram að allar þær ríkisstjórnir sem að því ferli hafa komið geta að mínu mati vel við unað. Það er uppbyggilegt að ræða málin á þeim forsendum eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á í dag, það væri miklu skemmtilegra að eiga orðaskipti þegar menn segðu kost og löst á hlutunum og leyfðu mönnum að njóta sannmælis.

Ég leyfði mér hins vegar, eins og margir aðrir ræðumenn, að vekja athygli á þeirri smæð forsætisráðherrans sem hefur orðið dálítið umtalsefni hér í dag, að reyna að eigna sjálfum sér allt og skreyta sig með — af því að ég er í svo góðu skapi, herra forseti — lánuðum fjöðrum. Ég ætla ekki að nota venjulegu aðferðina við þá myndlíkingu í dag. Það gæti líka farið í taugarnar á hv. formanni fjárlaganefndar, (Gripið fram í: Klárlega.) sem ég heyri að á eitthvað erfitt í dag.

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, við skulum auðvitað alltaf ræða þetta af auðmýkt, að þeir sem fyrst og fremst færðu fórnirnar til þess að koma Íslandi út úr hruninu voru almenningur, m.a. í gegnum skertan kaupmátt vegna falls raungengis krónunnar. Það er alveg rétt. Við eigum engan heiður fyrir það, en ríkisfjármálin hafa þó þróast svona, menn eru að gera því skóna að þetta sé árangur sem við getum verið stolt af, jafnvel á heimsvísu ef ég skildi hæstv. forsætisráðherra rétt. Það er alveg rétt, en hann á ekki einn það heimsmet að Ísland hefur sennilega snúið við alveg skelfilegri stöðu í ríkisfjármálum á skemmri tíma og með árangursríkari hætti (Gripið fram í: Icesave.) en nokkurt annað land sem hefur lent í hremmingum og þótt minni væru. Það er veruleikinn og það er ekkert nýtilkomið að það veki athygli. Strax á árunum 2012 og 2013 var það farið að vekja athygli hvað Ísland hafði hratt náð góðum tökum á sínum málum.

Já, áherslur okkar voru að sjálfsögðu gagnrýndar og það var hollt að fá á sig gagnrýni á síðasta kjörtímabili að svo miklu leyti sem hún var málefnaleg. Þær voru meðal annars gagnrýndar fyrir það, já, að (Forseti hringir.) við legðum of þunga áherslu á tekjuöflunarhliðina og það mundi kæfa hagvöxtinn. En hvar varð niðurstaðan? Nú höfum við staðreyndirnar um það mál, sú blanda sem við völdum reyndist heppileg og það hófst ágætur hagvöxtur strax á árinu 2011.