145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því að við séum hér að ræða fjárlög sem skila afgangi og minna á það ágæta viðkvæði, sem haft var við í mjög erfiðum niðurskurðaraðgerðum síðustu ríkisstjórnar, að það væri mikilvægt að við breyttum vöxtum í velferð. Það þýðir að það skiptir máli að ná niður hallanum á ríkissjóði til að eiga afgang til þess að geta greitt niður skuldir svo að vaxtagjöldin lækki. Vaxtagjöldin eru verulega íþyngjandi, verða nú tæpir 80 milljarðar, og eru einn af stærstu útgjaldaliðum ríkissjóðs.

Síðan tók ný ríkisstjórn við og hún hafði engan áhuga á að breyta vöxtum í velferð. Hún valdi þá stefnu að hygla þeim efnameiri á kostnað þeirra efnaminni. Svo kom hæstv. forsætisráðherra hingað og leyfði sér þau öfugmæli að tala um það frumvarp sem nú er til umræðu sem velferðarfjárlög. Þetta er ósvífið, vægast sagt. Ég teldi eðlilegt að við fengjum hér sérstaka umræðu þar sem hann ræddi sérstaklega velferðaráherslurnar í þessu frumvarpi.

Nú eru almannatryggingar að hækka í samræmi við lög en gildistíminn er ekki til 1. maí 2015, eins og í kjarasamningunum, heldur frá og með 1. janúar 2016. Svo vantar hitt frumvarpið. Það er ekki komið fram með hvaða hætti á að hækka almannatryggingarnar þannig að við vitum ekki hvað bótaflokkar eru að hækka. Allir sem reiða sig á almannatryggingar til afkomu vita að það skiptir máli hvaða bótaflokkar það eru sem hækka vegna skerðingaráhrifa af öðrum tekjum. Þetta er flókin umræða sem við tökum þegar það frumvarp kemur fram, en við eigum algjörlega eftir að sjá hvaða áhrif þetta hefur og á hversu marga.

Þá komum við að vaxtabótunum sem lækka um 1,5 milljarða. Við komum að barnabótunum sem eru hækkaðar um 3% á meðan verðlagsforsendur frumvarpsins eru 4,5%. Þær halda ekki í við verðlag. Síðan komum við að fæðingarorlofinu og það verður núna óbreytt frá árinu 2014, 370 þús. kr. á mánuði hámarkið. Þarna er verið að spara á smábarnafjölskyldum þessa lands sem ættu að fá, ef ekki hefði komið til neins niðurskurðar á fæðingarorlofinu frá 2008, að hámarki 845 þús. kr. á mánuði. Við í Samfylkingunni leggjum til 500 þús. kr. þak til að byrja með á mánuði því að þetta eru fjölskyldur með þunga framfærslubyrði, fólk sem er að koma undir sig fótunum og við þurfum að taka tillit til þess.

Barnafjölskyldur, sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og eignast börn, eru skildar eftir í þessu frumvarpi og látnar borga brúsann fyrir skattalækkanir, skattalækkanir sem munu þýða að við alþingismenn fáum skattalækkun upp á 12. þús. kr. á mánuði á meðan fólkið sem er með 300 þús. kr. á mánuði fær 1 þús. kr. í sinn vasa. Þetta er forgangsröðunin í fjárlögum sem hæstv. forsætisráðherra leyfði sér að kalla velferðarfjárlög.

Ég hef grun um að hæstv. forsætisráðherra geri ekki greinarmun á nafn- og raunstærðum. Ég vona að hann skilji muninn en talandi um að Landspítalinn fái nú 50 milljarða kr. gefur til kynna að hann skilji ekki að það er ekki verið að auka fjárveitingar til Landspítalans í ár heldur er verið að færa upp til verðlags og launa og raunniðurskurður á Landspítalanum er um 90 millj. kr. Á meðan álagið er í raun að aukast á sjúkrahúsinu svo að auka þyrfti í þá er verið að skera niður á Landspítala. Það er vart að maður trúi því eftir þá umræðu sem við höfum átt í þessum sal.

Í þessari smánarlega stuttu umræðu um þetta alvarlega mál ætla ég að ljúka orðum mínum á því að segja: Þetta eru ekki velferðarfjárlög, þetta eru fjárlög um aukinn (Forseti hringir.) ójöfnuð á Íslandi. Gegn því munum við jafnaðarmenn berjast.