145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2016. Ég verð ekki sú sem hrópar húrra fyrir þessum fjárlögum, mér þykja þau halda áfram að vera jafn hægri sinnuð og þau voru síðast og þar áður. Það veit ekki á gott fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu og það veit ekki á gott fyrir okkur landsbyggðarfólk. Það er ekki landsbyggðardrifið þetta blessaða fjárlagafrumvarp, heldur er frekar hægt að segja að það sé verslunar- og heildsaladrifið og drifið áfram af því að koma meiru undir þá sem betur hafa það og draga úr stuðningi við þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Breytingar á skattkerfinu miða að því að styðja þá sem betur mega sín og draga úr stuðningi við þá sem minna mega sín. Barnabætur halda ekki einu sinni í við verðlag. Aldraðir og öryrkjar fá ekki sambærilegar hækkanir og samið var um til þeirra lægst launuðu á vinnumarkaði. Það er hreinlega skammarlegt þegar ríkissjóður skilar þó þetta miklum afgangi að ekki sé spýtt betur í lófana gagnvart öldruðum og öryrkjum.

Húsnæðismál hafa verið hér til umræðu frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum. Loksins fæðist lítil mús sem er ekki til að hrópa húrra fyrir. Enginn sér fyrir sér hvað verður nákvæmlega, hvernig þetta kemur fólki til góða. Það er auðvitað fullt af ungu fólki sem er í miklum erfiðleikum við að fóta sig á leigumarkaði og reyna að eignast húsnæði. Ég vil nefna hér landsbyggðina, af því að hún hefur kannski ekki verið mikið í umræðunni varðandi þörf á húsnæði, en þörfin er mikil úti á landsbyggðinni. Þar hefur sem betur fer atvinna víða verið að styrkjast og þá hefur vantað húsnæði. Það er ekkert gert í þessu frumvarpi til að styðja íbúa landsbyggðar og sveitarfélaga þar sem þörfin er mikil á að reisa húsnæði til að bjóða fólki upp á sem vill setjast að í sveitarfélögum þar sem atvinnulífið hefur verið að taka við sér.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra mælti hv. þm. Ásmundur Einar Daðason svo að búið væri að jafna orkuverð í landinu að fullu. Fannst mér þá hv. þingmaður taka stórt upp í sig. Það er ansi langt í land með að það sé gert. Miðað við það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu vantar að minnsta kosti 400 milljónir í að jafna dreifingu rafmagns og dreifingu á flutningi varðandi húshitunarkostnað þar sem ekki er búið við jarðvarmaveitu. Ég held því að menn ættu að framkvæma meira en taka minna upp í sig í umræðum um þessi miklu hagsmunamál landsbyggðarinnar.

Talandi um hagsmunamál landsbyggðarinnar þá eru ekki fjármunir til að hrinda þessari miklu ljósleiðaravæðingu í gang, sem búið er að gera skýrslu um að kosti 5–6 milljarða. Það er einungis sama upphæð og var í fjárlögum á síðasta ári, þ.e. 300 milljónir á þessu ári. Þær duga skammt þó að þetta sé skref í rétta átt.

Fjármagn til samgöngumála, vegaframkvæmda, er ríkisstjórninni til háborinnar skammar. Ég er ekkert hissa á því að landsbyggðarþingmenn séu ekki þaulsetnir í þessum sal, þeir sem eru í meiri hlutanum. Þeir hljóta að ganga með hauspoka þegar þeir horfa á hvernig fjármagn er veitt til samgöngumála í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er hreinlega ekkert til nýframkvæmda. Um 800 milljónir fara í snjómokstur sem hefði þurft að vera enn meira. Í viðhald vega, sem vissulega er mikil þörf á, hvort sem er tengivega, héraðsvega eða vega almennt, að ég tali nú ekki um þá vegi sem eru enn bara moldarvegir, ætla menn ekkert að leggja. Þó að ríkissjóður skili hátt í 18 milljörðum í plús á þessu ári ætla menn ekkert að leggja til þessa málaflokks, þó að landið sé að fyllast af ferðamönnum og menn tali um það á hátíðarstundum að það eigi að reyna að dreifa þessum ferðamönnum vítt og breitt um landið. Hvernig eiga þessir ferðamenn að komast vítt og breitt um landið þegar samgöngur eru algjörlega látnar sitja á hakanum? Þetta er til háborinnar skammar.

Ég hef ekki sagt mitt síðasta orð um þetta fjárlagafrumvarp sem mér finnst vera arfalélegt.