145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í andsvörum fyrr í dag, þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra átti við mig andsvar, vorum við að tala um almannatryggingar og bætur. Það er rétt að taka það fram, maður gleymir sér oft í orðanotkun í hita leiksins, að auðvitað þiggja eldri borgarar þessa lands ekki bætur. Þeir eru að taka út lífeyrinn sinn sem þeir hafa unnið sér inn í gegnum tíðina — til að það sé sagt.

Virðulegi forseti. Það var margt sem ég gat ekki komið inn á áðan og get ekki komið inn á á þessum örfáu mínútum. Mig langar aðeins að koma inn á ferðaþjónustuna. Í yfirskrift Fréttablaðsins í gær stendur, með leyfi forseta: „Ferðaþjónustan tapar milljarði á seinagangi.“ Síðan er seinagangurinn ekki ríkisstjórninni að kenna heldur einhverjum allt öðrum. Ég tel að það sé ríkisstjórninni að kenna hvernig ástandið er í innviðum ferðaþjónustunnar. Eins og við þekkjum er verið að sækja aukafjárveitingu vegna þess að ráðherra málaflokksins sá ekki ástæðu til að setja fjármuni í hann. Fyrst kom hún fram með ónýtt frumvarp og svo sá hún ekki ástæðu til að setja í þetta fjármuni. Nú er töluvert af fjármunum til inni á reikningnum en það á að vera vegna þess að ferðaþjónustan sé svo svifasein í verkefnum. Ætli það sé ekki líka vegna þess að ákvarðanir eru teknar seint og þar af leiðandi hafa aðilar ekki getað farið af stað í framkvæmdir?

Virðulegi forseti. Frumvarpið gerir ráð fyrir 4,5% verðbólgu og einungis er gert ráð fyrir tæplega 3,8% uppfærslu verðlags sem þýðir — og það er mikilvægt að hafa það í huga — að stofnanir fá verðbólguna ekki bætta upp að fullu. Það þýðir auðvitað niðurskurð á mismuninn. Það er vert að hafa þetta í huga, virðulegi forseti.

Síðan eru það skattalækkanirnar, hvað þær kosta okkur. Þær eru upp á rúma 7 milljarða á næsta ári; 17 milljarða á næstu tveimur árum. Það á sem sagt að lækka skatta á tekjur ríkissjóðs um 25 milljarða kr. á næstu fjórum árum. Við þurfum auðvitað að spyrja ríkisstjórnina hvernig hún ætli að mæta því tekjutapi. Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra, nema hann geri ráð fyrir því að lækkun tolla og allt það og einkaneyslan verði slík að hún bæti þetta mikla tekjutap upp.

Virðulegi forseti. Það er mjög margt sem við þurfum að fara vel í gegnum. Á bls. 92 kemur meðal annars fram að frumútgjöld eru mjög lág og nánast komin að hættumörkum. Það gerir ríkissjóði auðvitað erfitt fyrir. Ef þau fara þetta neðarlega, í 22–23%, þá er ríkissjóður nánast að draga sig út úr öllum sameiginlegum rekstri. Það er þá kannski bara Alþingi og Stjórnarráðið sem eftir standa. Það getur varla verið markmiðið hjá ríkisstjórninni að gera það, nema hvað? Er það kannski hægri stefnan að samneyslan verði sáralítil? Því verður kannski svarað hér síðar. Þetta sýnist mér að minnsta kosti vera það sem myndirnar sýna í ritinu Stefnur og horfur. Ég held að við þurfum að fara mjög vel yfir það.

Óregluleg útgjöld eru að aukast. Það er eitt af því sem ég hef gagnrýnt töluvert. Mér finnst vera þarna inni liðir sem eiga ekki að vera óreglulegir, við vitum nánast hverjir þeir eru. Það er alla vega mjög fátt sem þarf að vera óreglulegt og ætti að vera hægt að setja annað inn á hefðbundinn hátt. Formaður fjárlaganefndar talar gjarnan um aga í fjármálum og þetta er einmitt eitt af því sem eykur aga ef við drögum það beint inn í frumvarpið en höfum það ekki undir liðnum um óregluleg útgjöld.

Hér í dag hefur verið farið yfir margt. Ég held að í andsvörum og öðru, sem ég hef tekið þátt í, og í þeim stuttu ræðum sem fluttar hafa verið sé augljóslega margt sem við þurfum að fara betur yfir. Það eru auðvitað jákvæð teikn á lofti. Það eru líka jákvæðir hlutir í þessu frumvarpi en svo eru aðrir sem eru alveg óásættanlegir, m.a. það sem ég hef komið inn á og varðar sérstaklega kjör eldri borgara, öryrkja og þeirra sem minna mega sín, skattaleiðin sem fara á og svo ástandið í vegamálum sem er mér afar hugleikið og ég hef miklar áhyggjur af.