145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er mikilvægt að við tökum þetta upp strax við 1. umr. fjárlaga. Það er rétt hjá hv. þingmanni að nauðsynlegt er að fara vel yfir þá fjárlagaliði sem birtast okkur í frumvarpinu og varða málefni flóttafólks og hælisleitenda og eins varðandi móttökumiðstöðina.

Það dylst engum að stefna ríkisstjórnarinnar sem hér starfar er, og það er skoðun þingmannanefndarinnar líka, að það beri að klára að setja móttökumiðstöðina á fót. Það verkefni verður klárað. Við þekkjum það vel, ég og hv. þingmaður, að fyrir gerð síðustu fjárlaga þurftum við í þingmannanefndinni að beita okkur mjög til þess að hafa áhrif á með hvaða hætti fjármagn kæmi inn í þá fjárlagaliði er varða hælisleitendur. Ég geri ráð fyrir að við munum beita okkur í þá veru.

Frá því að fjárlagafrumvarpið var skrifað hefur sérstök ráðherranefnd verið stofnuð um málefni flóttamanna sem ég geri ráð fyrir að muni skila af sér tillögum sem við þurfum að taka afstöðu til, m.a. hvað varðar fjárlagafrumvarpið.

Eins hoppandi kát og ég er með fjárlagafrumvarpið þá sagði ég ekki að það væri fullkomið. Það eru alltaf einhver atriði sem við þurfum að fara yfir og þetta er svo sannarlega eitt af þeim. Ég veit að ég og hv. þingmaður sem hér spyr mig, Össur Skarphéðinsson, munum vera mjög vakandi hvað varðar málefni hælisleitenda og flóttamanna.