145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi Norðfjarðargöngin, mér finnst hljóta að koma til skoðunar að nýta betur þau tæki sem eru á staðnum með því að halda framkvæmdunum gangandi í stað þess að hætta þeim, flytja tækin í burtu og koma svo aftur á næsta ári. Það tel ég að geti leitt til sparnaðar og aukið þjóðhagslega hagkvæmni framkvæmdarinnar. Það mundi leiða til þess að við opnuðum göngin fyrr og það finnst mér fyllilega eiga að koma til skoðunar.

Ég ætla síðan að svara varðandi samgöngur almennt og vona að ég geti gert það í stuttu andsvari. Við byrjum á því að setja okkur markmið um þróun gjaldanna. Það má segja að framkvæmdastigið í samgöngumálum sé afleiðing af þeirri stefnumörkun sem birtist í frumvarpinu um þróun frumgjaldanna. Við erum að hugsa þetta þannig að raunvöxtur frumútgjalda verði hóflegur á næsta ári, 1,3% á ári að meðaltali, og þar með um 5% uppsafnað yfir tímabilið til 2019. Þegar við höfum sett okkar þetta markmið um þróun frumútgjaldanna er næsta verkefni að skipta því útgjaldasvigrúmi sem er til staðar. Staðan í fjárfestingu í landinu er töluvert að breytast til batnaðar þannig að það kallar ekki á sama átak í opinberum fjárfestingum og var kannski fyrir nokkrum árum. Það má segja að í þessu fjárlagafrumvarpi birtist ákveðin forgangsröðun sem er afleiðing af því hvernig við viljum að útgjaldahliðin þróist. Það er frekar forgangsraðað í þágu velferðarmála en samgöngumála.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að gjarnan vildi ég geta séð fleira gert á framkvæmdasviðinu. Þar leita á okkur grundvallarspurningar eins og til dæmis þessi: Þegar Norðfjarðargangaframkvæmdinni (Forseti hringir.) er lokið, eigum við strax að fara í næstu göng eða eigum við að nýta kannski eitt ár í millitíðinni til að sópa upp alls konar viðhaldsverkefnum og og öðrum minni framkvæmdum sem hafa beðið?