145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem beint er til mín snertir fyrst og fremst málefni útlendinga sem leita hingað og varða innanríkisráðuneytið eins og mörg af þeim kærumálum sem falla undir kærunefndina sem nefnd var. Kvótaflóttamenn og önnur málefni þessu tengd geta líka fallið undir félagsmálaráðuneytið og ég verð bara að vísa í fjárlagafrumvarpið. Við verðum síðan að geta rætt þessi mál í því samhengi að þau eru á mikilli hreyfingu, kannski ekki síst síðustu vikurnar. Á næstu vikum eða mánuðum bíða okkar ákvarðanir um það hvernig við ætlum að taka á þeirri neyð sem er komin upp í Evrópu og hefur verið umtalsefni hér. Við því verður að bregðast í þinglegri meðferð.

Það liggur fyrir að okkur hefur ekki gengið nægilega vel, svo ég tali aftur um úrskurðarnefndirnar, að stytta biðtímann eftir niðurstöðu þar. Áform voru uppi um að stytta kærumeðferðartímann. Það hefur ekki gengið eins og við höfðum væntingar um og þar af leiðandi hefur kostnaður verið meiri en ráð var fyrir gert. Það bíður þingsins að fara ofan í þessa einstöku liði og ráðherranna sem verða hér til svara á morgun að svara fyrir það hvernig þeir meta stöðuna í einstökum málaflokkum og hvernig þeir telja rétt að bregðast við.