145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrr á þessu ári birti Seðlabankinn skýrslu um fjármálalegan stöðugleika. Þar var yfirlit yfir vexti og vaxtamun í fjölmörgum löndum. Þar kom fram að íslensku bankarnir hafa langhæsta vaxtamun. Með öðrum orðum, það liggur við að þeir stundi það að taka ránsvexti af íslenskum neytendum. Þeir sömu bankar hafa síðan brugðið fæti fyrir allar tilraunir til að endurreisa sparisjóðakerfið.

Andspænis þessu fannst mér Framsóknarflokkurinn bregðast vel við á landsfundi sínum þegar hann samþykkti tillögu um að Landsbankanum yrði breytt í samfélagsbanka. Þetta var gert að tillögu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Það átti samkvæmt þeirri mótuðu stefnu Framsóknarflokksins að verða banki sem beitti sér fyrir harðri samkeppni við hina ofurbankana, héldi niðri vöxtum og nýtti arð sinn til að styrkja hag neytenda. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hann sé sammála því sem segir í fjárlagafrumvarpinu að selja eigi stóran hluta af Landsbankanum (Forseti hringir.) og þar með að koma í veg fyrir að stefnu Framsóknarflokksins um að breyta honum (Forseti hringir.) í samfélagsbanka verði hrint í framkvæmd.