145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn einu sinni hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson misskilið allt sem ég sagði. (ÖS: Þú sagðir ekkert.) Ég sagði í fyrra andsvari mínu að ég ætlaði að koma inn á þetta í seinna andsvari. (Gripið fram í.)

Varðandi spurninguna um Landsbankann og þær hugmyndir sem Frosti Sigurjónsson hefur undanfarið verið að viðra í fjölmiðlum (Gripið fram í.) og voru samþykktar á flokksþingi Framsóknarflokksins — þakka þér fyrir, hv. þm. Kristján Möller — þá held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að taka nú umræðuna um það hvort við eigum að tryggja að einn banki verði byggður (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.) sem samfélagsbanki. Það hefur margt breyst á undanförnum mánuðum. (Gripið fram í.) Til að mynda hefur það gerst að sparisjóðakerfið leið undir lok á síðustu sex mánuðum. Allir þessir þættir kalla á það að við sem þjóð tökum upplýsta umræðu um það núna. Það er það sem Frosti Sigurjónsson er að gera í viðtölum og hefur kallað eftir. Ég styð að það verði kannað hvort skynsamlegt sé að einn banki okkar landsmanna verði áfram banki allra landsmanna, (Gripið fram í.) þ.e. Landsbankinn. (Forseti hringir.) Það þarf að tryggja að hann verði byggður þannig upp að hann verði samfélagsbanki, (Forseti hringir.) hann verði fyrirmynd varðandi vexti o.fl. Það er verkefnið fram undan (Forseti hringir.) og það styð ég að sjálfsögðu, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.