145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég held að við eigum alltaf að vera undir það búin og eigum alltaf að reyna að haga okkar hagstjórn þannig að við reynum að koma í veg fyrir það með öllum mögulegum ráðum að hér verði hrun aftur. Það sem einu sinni gerist getur alltaf gerst aftur.

Ég held til að mynda að einn af þeim þáttum sem við höfum þurft að tryggja betur eftir efnahagshrunið hafi verið bankakerfið. Ég held að við höfum ekki tekið nægilega á varðandi bankakerfið eins og hefur komið fram og ég hef gagnrýnt opinberlega. Ég held líka að við þurfum að taka umræðu um peningastjórnina, verðtrygginguna, hvernig hún spilar inn í þetta allt saman, og hvernig stýrivaxtakerfi Seðlabankans er upp byggt. Það eru fleiri þættir sem við þurfum að taka umræðu um sem samfélag til að koma í veg fyrir að hér gerist sömu (Forseti hringir.) hlutir á nýjan leik. Ég held áfram með þetta í seinna andsvari.