145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fjárlögin eru fastur liður í störfum þingsins er það orðinn fastur liður á þessu kjörtímabili að hæstv. forsætisráðherra skorist undan því og treysti sér ekki til þess að eiga lýðræðislega umræðu um stjórnarmálefni í þingsalnum. Það gerist nú þegar forsætisráðherra hefur tekið að sér tiltekna málaflokka, ákaflega mikilvæga sem snúa að þjóðmenningu, að rétt er og eðlilegt að hann ræði fjárlagahlið þeirra málaflokka í umræðum í þingsal og var eftir því óskað í vikunni. En forsætisráðherra hafnar því að koma hér til umræðunnar og ræða um fjárveitingar til þeirra málaflokka sem hann hefur tekið inn í forsætisráðuneytið.

Það fylgir auðvitað í kjölfarið á þeim sið sem hann hefur tamið sér frá upphafi kjörtímabilsins, að neita að taka sérstakar umræður, verða ekki við skýrslubeiðnum og með öðrum hætti að koma sér undan því að ræða málefni lands og þjóðar hér í þingsalnum á jafnræðisgrundvelli við aðra þingmenn.

Af því að þetta er nú í fyrsta sinn í vetur (Forseti hringir.) ætla ég svo sem ekki að gera mikið með það á þessum degi, en ég hvet þó til þess (Forseti hringir.) að formaður þingflokks Framsóknarflokksins leggi að forsætisráðherra að bæta ráð sitt og treysta sér (Forseti hringir.) til þess að taka umræðu við aðra.