145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Ég vil líka geta þess að þær breytingar hafa orðið frá síðasta kjörtímabili að hæstv. forsætisráðherra hefur tekið til sín tiltekna málaflokka sem eru málefni Þjóðminjasafns, Minjastofnunar Íslands, Fornminjasjóðs og Húsafriðunarsjóðs sem samtals leggja sig á tæpan milljarð í fjárlagafrumvarpinu, en Alþingi Íslendinga hefur enga stöðu til þess að eiga orðastað við viðkomandi ráðherra um þann milljarð. Það hlýtur að teljast mjög ómálefnalegt af hæstv. forsætisráðherra að víkja sér undan þeim samskiptum við þingið en það er því miður orðin regla á þessu kjörtímabili frekar en undantekning að hæstv. forsætisráðherra hunsar Alþingi. Það er söguleg afstaða forustumanns í ríkisstjórn til Alþingis. Þetta verður það sem hæstv. ráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður helst minnst fyrir (Forseti hringir.) og væntanlega líka þeirrar staðreyndar (Forseti hringir.) að hv. þingmenn stjórnarflokkanna komi hér síðan upp (Forseti hringir.) og verji það.