145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:40]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það vantar ekki hrokann í talsmenn stjórnarflokkanna. Lýðræðið er ferlega erfitt stundum, það að vera veitt aðhald (Gripið fram í.) getur verið ferlega erfitt stundum. (Gripið fram í.)Það að fá aðhald getur verið ferlega erfitt stundum, en þið verðið að þola það vegna þess að út á það gengur lýðræðissamfélag. Sá forsætisráðherra sem nú situr tók þá ákvörðun að verða meira en bara forsætisráðherra, hann tók þá ákvörðun að verða ráðherra menningararfsins eða þjóðmenningarráðherra eða hvað sem menn kalla það. Hann hefur tekið til sín málaflokka sem er eðlilegt að hann komi hingað og ræði við okkur um. Það var ekki þannig á síðasta kjörtímabili þannig að þetta er ósamanburðarhæft.

Virðulegi forseti. Minjastofnun, Fornminjasjóð, Húsafriðunarsjóð, Hagstofuna o.fl. stofnanir þurfum við að ræða við forsætisráðherra. Forsætisráðuneytið er ekki konungdæmi eða sjálfsstjórnarsvæði, það er hluti af íslenskri stjórnsýslu (Forseti hringir.) og maðurinn skal koma hingað og ræða við okkur um sín mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)