145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

viðvera forsætisráðherra í fjárlagaumræðu.

[10:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hæstv. forseti hafi farið vel yfir það áðan hvernig það er til komið að forsætisráðherra sé ekki hér í umræðum. Það var ákveðið hér á síðasta kjörtímabili þegar gerðar voru breytingar á fyrirkomulagi á umræðu um fjárlög og er unnið eftir því vinnuferli í dag. Ég held að það lýsi ákveðinni málefnaþurrð hjá stjórnarandstöðunni að láta þetta verða stóra málið í dag, að við séum að vinna eftir fyrirkomulagi sem sett var á síðasta kjörtímabili. Við urðum reyndar vör við þá málefnaþurrð í gær þegar það var einkum og sér í lagi aðaláhersluefni stjórnarandstöðunnar hverjum væri að þakka sá góði árangur sem birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu, [Háreysti í þingsal.] hvort hann væri fyrri ríkisstjórn eða núverandi ríkisstjórn að þakka.

Virðulegi forseti. Stefnuræða forsætisráðherra fór hér fram fyrir örfáum dögum. Forsætisráðherra verður ugglaust í óundirbúnum fyrirspurnum í næstu viku þannig að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa nægan vettvang (Forseti hringir.) og möguleika til þess að eiga orðastað við hann, en hér erum við að vinna eftir ferli sem sett var af stað á síðasta kjörtímabili þegar núverandi stjórnarandstaða var með meiri hluta. (Gripið fram í.)