145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[10:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir alveg prýðilega greinargerð fyrir málefnum ráðuneytis síns á þeim örskamma tíma sem hún hefur. Ég ætla eins og hún að dvelja við málefni flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd og tala raunar eingöngu um það. Hæstv. ráðherra kemur hingað og biður um liðsinni þingsins og sannarlega fær hún það, að minnsta kosti í ranni stjórnarandstöðunnar og ég efa ekki að mikill skilningur er líka á því máli hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins. Það vill svo til að í þessum málaflokki, hugsanlega aðeins þessum málaflokki, sem er mjög umdeildur hefur tekist einlæg og djúp, þverpólitísk samstaða um það með hvaða hætti á að skipa þeim málum. Ég segi líka fyrir mína parta að ég tel lofsvert hvernig hæstv. ráðherra hefur tekið á þessum málaflokki og dreg ekki í efa skilning hennar á honum. Ég geri mér algjörlega grein fyrir að veður hafa skipast skjótt í lofti og ég ætla ekki að gera ágreining við ríkisstjórnina um það að mér finnst margt vanta í frumvarpið. Hæstv. ráðherra bendir á það sem við þekkjum öll að verulegar breytingar hafa orðið á síðustu mánuðum. Með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherra tel ég þó að hún geti ekki komið hingað og vísað til þeirra vandamála þegar hún ræðir til dæmis fjárþurrð hjá Útlendingastofnun. Hún lá algjörlega fyrir og það er ekki bara það, við vitum að Útlendingastofnun berst oft og tíðum í mjög vanþakklátu umhverfi við mjög erfið viðfangsefni og stendur sig miklu betur en margir telja. Það er samt sem áður staðreynd að þrátt fyrir meira álag á henni er ekki bara haldið sjó með fjárframlög, það er engu bætt við, þau eru skorin niður um tæpar 30 milljónir. Það er ekki hægt að afsaka með hinum nýsprottna stórkostlega vanda sem við stöndum andspænis.

Hæstv. ráðherra nefndi þrjá lykilþætti í frumvarpinu sem þetta varðar, þ.e. hælisleitendur, liður 399 Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, en hæstv. ráðherra nefndi ekki tvo mikilvæga lykilþætti. Annað er til dæmis móttökumiðstöðin. Búið er að gera samning um hana, sá samningur grundvallaðist á kostnaði sem mig minnir að hafi verið í kringum 160–180 millj. kr. Samningurinn liggur fyrir. Ég er náttúrlega ekki búinn að vera hérna lengi en ég fann þetta ekki í fjárlagafrumvarpinu.

Kvótaflóttamenn, búið er að taka ákvörðun um að taka að minnsta kosti 50 en núna hefur Evrópusambandið skipað okkur að taka við okkar skerf til viðbótar. Mér reiknast til að það séu 110–120. Hver kostar 5 millj. kr. Bara þeir 25 sem að minnsta kosti eiga að koma á næsta ári kosta 125 millj. kr. Hvar er það?

Ég ætla svo að ræða lið 399 Hælisleitendur, (Forseti hringir.) fjárveitingar til umsækjenda um alþjóðlega vernd, á eftir en þar vantar hundruð milljóna miðað við orðin sem hæstv. ráðherra lét falla hér áðan.