145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Rétt er að taka fram að á málasviði innanríkisráðuneytisins var ákveðin 0,7% aðhaldskrafa og er það lægri aðhaldskrafa en hefur verið árin á undan. Það er sú almenna aðhaldskrafa sem lögð var á ráðuneytin fyrir utan þau ráðuneyti sem voru undan aðhaldskröfunni skilin og það er ráðuneyti velferðarmála. Það skýrist af forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þá átt. Líka var aðeins lægri aðhaldskrafa á menntamálin, mig minnir að það hafi verið 0,5% þannig að sú tala sem hv. þingmaður nefndi út af fangelsismálum er bara þessi aðhaldskrafa sem birtist þar.

Við höfum verið að reyna að pota áfram fjármunum í fangelsismál og það hefur verið vandi fyrir okkur í mörg ár, um áratugaskeið, að gefa þeim málaflokki það svigrúm sem hann þarf á að halda í ríkisrekstrinum. Þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur eins og margir aðrir málaflokkar sem undir okkur heyra, en menn verða að skilja að veita þarf til þessara málaflokka fé og við höfum verið að potast áfram með það. Auðvitað er Hólmsheiðarfangelsið mjög mikilvægt, en ekki síst það sem ég nefndi aðeins hér að framan og ég veit að hv. þingmaður er ábyggilega með í huga, þ.e. sú almenna umgjörð utan um þá sem þurfa að vera í þessu kerfi.

Ég held að um leið og við lítum til fjármunanna þurfum við einnig að skoða regluverkið og þau úrræði sem við getum beitt handa þessum hópum og þess vegna finnst mér það frumvarp sem nú er í vændum vera mikilvægt innlegg í það.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. hve mikilvægt er að hafa gott starfsfólk. Ég held að við séum öll sammála um það. Ég vil líka nota tækifærið til að segja að í Útlendingastofnun er náttúrlega öndvegisfólk sem starfar undir gríðarlega miklu álagi og hefur staðið sig með stakri prýði og ótrúlegt hvað það fólk starfar lengi þar undir því mikla álagi. Um leið og fólk tekst á við þau erfiðu verkefni sem þar eru hefur það staðið sig með stakri prýði og er ástæða til að það sé nefnt í þessari umræðu.