145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil að sjálfsögðu taka þátt í áframhaldandi umræðu um fjárlagafrumvarpið. Þegar 1. umr. lýkur og málið kemur aftur fyrir þingið í 2. umr. verð ég að sjálfsögðu reiðubúin að svara þeim spurningum sem undir innanríkisráðuneytið heyra af því að það er augljóst mál að ég hef bara rétt imprað á örfáum atriðum í þeirri stuttu umræðu sem hér er. Ég vil þó taka fram að mér finnst samt sem áður til bóta að einstakir ráðherrar séu hér að svara á ákveðnum tíma varðandi málaflokka sína. Mér finnst vera ágætisbragur á því en það breytir ekki því að ráðherrar geta náttúrlega hvenær sem er tekið til máls um þá málaflokka sem undir þá heyra og eiga að sjálfsögðu að gera það.

Ég vil vekja athygli á því að ég er í sjálfu sér þeirrar skoðunar að það sé heilbrigt fyrir ríkisreksturinn að á honum sé aðhald, að menn séu ávallt að velta fyrir sér þeim fjármunum skattborgaranna og samfélagsins sem varið er í málaflokkana. Aðhald er eðlilegt í ríkisrekstri en það er alltaf spurningin hvar aðhaldið á að birtast mest. Ég vil þess vegna taka fram að ég var auðvitað ánægð að sjá að það var þó örlítið minna aðhald á ráðuneytið núna en var á árinu á undan, við getum alltaf ákveðið það í sjálfu sér að hlífa einstökum málaflokkum við aðhaldi, en heilt yfir finnst mér skynsamlegt að aðhald sé ávallt í ríkisrekstrinum.

En varðandi málefni fanga og eftir atvikum lögreglumanna vil ég líka leggja áherslu á aðra umgjörð um þá. Vil ég vekja athygli á því hér, fyrst ég hef tilefni til þess, að í því frumvarpi sem boðað er um fullnustu refsinga er nokkuð vikið að menntun fangavarða. Við erum líka með í ráðuneytinu núna vinnu vegna menntunar lögreglumanna, þannig að sá þáttur, umgjörðin utan um þá aðila sem gegna þessum mikilvægu störfum skiptir líka máli. Auðvitað skipta laun alltaf máli en það skiptir líka máli að búið sé að menntun manna, undirbúningi og símenntun þannig að þeir geti sem best axlað sína mikilvægu ábyrgð í starfi.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.