145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þingmaður segir varðandi það að við þurfum að taka vel á móti þeim sem hingað koma. Það hefur verið áhersla mín í þeirri umræðu sem farið hefur fram undanfarna daga að um leið og við horfum til framtíðar þurfum við að standa okkur í því að taka við þeim verkefnum og sinna þeim verkefnum sem á borði okkar liggja. Það er alveg rétt að við erum með 230 manneskjur í ferli núna sem við þurfum að sinna.

Varðandi sýrlenskar fjölskyldur er það svo að á þessu ári, framan af og alveg undir það síðasta, var ekki um fjölskyldur að ræða í þeim tiltekna hópi. Það voru komnir 18 núna um miðjan ágúst en síðan hafa komið að minnsta kosti tvær sýrlenskar fjölskyldur hvor sínum megin við áramótin. Ég er ekki með tölur um allra síðustu daga en þær fjölskyldur þurfa að sjálfsögðu að komast í skóla. Við erum með tíu fjölskyldur í kerfinu sem við þurfum að fá aðstoð sveitarfélaganna við að koma inn í skólakerfið og það hefur sannast sagna ekki gengið nógu vel að ganga frá því máli. Ég er því alveg hjartanlega sammála því að sveitarfélögin þurfa líka að vera vakandi fyrir þeim hópi sem hér er kominn. Það veldur manni náttúrlega ákveðnum áhyggjum þegar við erum ekki með fleiri fjölskyldur þetta en erum samt í þessum viðræðum út af þeim, en þær eiga sér stað þessa dagana. Ég á von á því að það muni síðan tvö sveitarfélög taka við fjölskyldunum. En þarna reynir verulega á.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta með móttökumiðstöðina, þann lið sem hún er undir, mér tókst ekki að koma því að í ræðu minni. Útlendingastofnun er að þróa þetta úrræði, móttökumiðstöðina, í húsnæði í Hafnarfirði núna. Hún (Forseti hringir.) gerir það á sama tíma og hún stendur í miklum stórræðum en verið er að móta verkferla og undirbúa vinnuna, (Forseti hringir.) þannig að það er allt í vinnslu. En að sjálfsögðu er það ærið (Forseti hringir.) verkefni fyrir starfsmenn Útlendingastofnunar ofan á önnur verkefni sem á borði hennar liggja.