145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil nota mínútuna sem ég hef til að skora á þau sveitarfélög landsins sem hafa lýst sig reiðubúin til að taka á móti kvótaflóttafólki til að íhuga hvort þau séu ekki tilbúin til að taka á móti hælisleitendum, vegna þess að núna vantar þá þjónustu. Það vantar slíka samninga í dag og ég hvet íbúa þessara sveitarfélaga til að beita sér fyrir því og nota krafta sína til að benda sveitarfélögunum á að þetta er verkefni dagsins í dag. Það verðum við að leysa. Við verðum að koma málunum þannig fyrir að fólk sé velkomið hér og fái þjónustu og sérstaklega að börnin komist inn í skólakerfið. Vissulega kostar það fjármuni, það kostar átak, þetta kostar það að finna húsnæði, en er það ekki akkúrat það sem fólk var að bjóðast til að gera fyrir nokkrum dögum síðan? Þetta vantar í dag. Förum í að leysa það verkefni. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )