145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að víkja hér að tveimur málum fyrst og fremst sem bæði hefur töluvert borið á góma í þessari umræðu og þá kannski í fyrsta lagi þann málaflokk sem varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd og þá stöðu sem er viðvarandi og hefur verið um nokkuð margra missira skeið hjá Útlendingastofnun. Sú stofnun, sem fer með gríðarlega mikilvæg mál, hefur verið fjársvelt til mjög langs tíma og hefur þar af leiðandi ekki getað sinnt verkefnum sínum með nægilegum sóma. Við höfum séð það sem höfum verið í þingmannanefndum um málefni útlendinga að þar hefur pottur verið brotinn.

Hæstv. ráðherra talar um að við höfum kannski ekki séð umfang vandans fyrir og að mörgu leyti séum við með miklu stærri viðfangsefni í höndunum núna en við vorum með fyrir nokkrum missirum og ég vil spyrja ráðherrann: Hvað gerir það þá að verkum að ráðherrann treystir sér til þess að leggja til í fjárlagafrumvarpi að fjárframlög til Útlendingastofnunar lækki á milli ára? Mér er það óskiljanlegt. Ég skil það sem hæstv. ráðherra segir hér um viðbótarframlag upp á 50 milljónir í dag og ég fagna því sérstaklega. Ég skil það sem hæstv. ráðherra segir þegar hann höfðar til þverpólitískrar samstöðu hér í þinginu um að við bætum verulega í málaflokkinn milli 1. og 2. umr. í þinginu og ég mun ekki liggja á liði mínu og ekki við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hvað það varðar, en staða Útlendingastofnunar er ekki nýtt vandamál. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um það þó að ég væri líka ánægð að heyra um fjármagnið í móttökumiðstöð sem ég finn ekki í frumvarpinu.

Hér hefur verið fjallað töluvert um samgöngumál. Það er verulegt áhyggjuefni að svo virðist sem núverandi ríkisstjórn hafi mistekist — við erum komin á seinni hluta kjörtímabils ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar — gjörsamlega stefnumörkun í tveimur lykilmálaflokkum, annars vegar í samgöngumálum og hins vegar í málefnum ferðaþjónustunnar. Við erum að tala um nýjustu og öflugustu atvinnugrein samfélagsins sem býr við algjört stefnuleysi stjórnvalda. Vegna þess að samgöngumálin snúast sannarlega um innviði, ekki síst núna um innviði fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein, spyr ég hvort fyrir hendi sé skipulagt samstarf milli ráðuneytis samgöngumála og ráðuneytis ferðamála að því er varðar aukið álag á vegi landsins (Forseti hringir.) vegna aukins fjölda ferðamanna.