145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Við í innanríkisráðuneytinu höfum einnig hvatt sveitarfélögin mjög í því að líta líka til hælisleitenda þegar menn bjóðast til þess að veita aðstoð í þessum viðkvæma málaflokki. Ég held raunar að þótt þetta hafi komið frekar hratt yfir núna sé varla hægt að segja að þau kerfi sem við höfum búið til séu hugsuð fyrir það ástand sem nú er í heiminum og þá þjóðflutninga sem við sjáum núna. Þetta er svo mikið að vöxtum að það er mjög erfitt fyrir lítil lönd eða hvaða land sem er sem er að reyna að fóta sig í móttöku flóttamanna þegar allt í einu verður bara gjörbreyting og eðlismunur, vil ég segja, á því sem við sjáum núna og því sem gæti talist vera eðlilegt undir venjulegum kringumstæðum.

Þess vegna erum við núna, um leið og við tökumst á við þennan vanda, að reyna að straumlínulaga þetta kerfi. Ég tek undir með hv. þingmanni að við verðum að ná betri tökum á því. Ég hygg að við séum að gera það, við þurfum væntanlega að vera örlítið þolinmóð út af úrskurðarnefndinni, eðlilega, en það er þó allt saman að fara í rétta átt eins og hv. þingmaður þekkir auðvitað mjög vel í starfi sínu í þingmannanefnd. Á þetta þarf allt að líta.

Maður hefur auðvitað velt því fyrir sér hvernig sé best að fara í málin þegar svona mikil aukning verður. Það er augljóst að langmesta þekkingin er á vettvangi Útlendingastofnunar þannig að það er langskynsamlegast að færa henni aukið fé þannig að hún geti betur vaxið frekar en að vera að búa til aukaúrræði og flækja þar með hlutina. Ég held að við ættum að byggja á því sem við erum með og ég vil segja að það er líka ágætt að þessi ráðherranefnd sé tekin til starfa um flóttamannamál. Allt þetta hefur hjálpað okkur í innanríkisráðuneytinu til að fá fólk til að skilja betur þennan málaflokk sem við erum búin að vera að berjast með árum saman. Þessi umræða núna hjálpar okkur í raun og veru og almenningur er farinn að skilja (Forseti hringir.) betur hvað er að gerast og þá verður þetta mál auðveldara í allri opinberri umræðu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur.