145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægður með að hæstv. ráðherra sjái hlutina með þessum augum. Hér er um að ræða svo mikla strauma og það mikla atburði að einstök átaksverkefni leysa ekki vandann. Við þurfum með einhverjum hætti að laga okkar stofnanir að því að þetta geti verið viðvarandi viðfangsefni til langs tíma.

Aftur að samgöngumálunum, þá skildi ég þar við að ég vildi sjá meiri fjármuni fara til þeirra verka vegna þess að framkvæmdir í samgöngumálum hafa setið á hakanum alveg frá hruni. Ég ítreka að mér finnst við standa frammi fyrir nokkuð uppsöfnuðum vanda sem þurfi að leysa úr. Ég held að hæstv. ráðherra sé að reyna að gera það sem hægt er með takmörkuðu fjármagni, en ég vildi þó nota þetta tækifæri til þess að segja að við frekari vinnu við samgönguáætlun þarf auðvitað að hafa það í huga að við erum að vinna okkur út úr ástandi sem hefur verið mjög óeðlilegt, þ.e. óvenjumikill samdráttur á þessu sviði í óvenjulangan tíma.

Ég vil beina einni spurningu til hæstv. ráðherra sem tengist þessu og það er spurning sem hefur reglulega komið upp á undanförnum árum í sambandi við gerð Sundabrautar sem hugmyndir manna hafa gengið út á að yrði jafnvel í einkaframkvæmd og/eða fjármögnuð með veggjöldum eða eitthvað þess háttar. Það eru ýmsar hugmyndir uppi og ýmsar vangaveltur í að minnsta kosti 20, 25 ár um staðsetningu og annað þess háttar. Ég er að velta fyrri mér viðhorfi hæstv. ráðherra til þess að þau máli verði tekin upp að nýju (Forseti hringir.) og hugað að því hvernig verði hægt að koma því í (Forseti hringir.) framkvæmd án þess endilega að það hafi áhrif eða skerði möguleika til annarra samgönguverkefna.