145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef í langan tíma verið áhugasöm um gerð Sundabrautar. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að áform um þetta verkefni hafa tafist. Hv. þingmaður nefndi legu brautarinnar og viðræður milli ríkis og borgar um það hvernig þeim málum ætti að vera háttað. Ég held að það sé full ástæða til þess að fara í gegnum það hvort hægt sé að ná einhverri lendingu þar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að slík framkvæmd eigi að vera einkaframkvæmd og raunar tel að við eigum að líta til einkaframkvæmda í samgöngukerfinu. Það skiptir auðvitað máli líka við þessar aðstæður að við gerum það, líka ef við lítum til þróunar ríkisfjármála, þá er heppilegt að einkaaðilar komi að út af þensluáhrifum ríkissjóðs. Allt hjálpast að við þetta. Ég tek undir það.

Að öðru leyti tek ég nótis af þeim brýningum sem hv. þingmaður nefndi í samgöngumálum almennt. Ég vísa í fyrri svör sem ég hef gefið í þeim efnum.

Ég hyggst nú í fjórða skipti gera tilraun til að þakka fyrir þessa góðu umræðu og þingmönnum öllum fyrir að taka þátt í henni. Ég skil það svo á hæstv. forseta að mér sé nú óhætt að gera það. Ég lýsi mig að sjálfsögðu áfram reiðubúna til þess að ræða við þingið hvenær sem er um þau mál sem undir þetta ráðuneyti heyra og snerta fjárlagagerðina og mun ábyggilega blanda mér inn í hana á síðari stigum.

Ég óska nú hv. fjárlaganefnd góðs gengis í hennar erfiðu málaflokkum en bið hana í lengstu lög að horfa dálítið fram í tímann, tala nú ekki um þau málefni sem hér hafa efst verið á baugi af því að það er augljóst mál að þar þurfum við að bæta í fjármagni. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Þetta verður ekki verkefni sem verður til eins eða tveggja ára, þetta er langtímaverkefni sem við munum fara í og við getum með engu móti svarað algjörlega fyrir hvernig muni ljúka.