145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, að sá sem hér stendur átti sæti í utanríkismálanefnd þegar fyrri áætlun var samþykkt. Eins og staðfest er í þingskjölum, m.a. í nefndarálitum, minnir mig, setti ég ákveðna fyrirvara við þá afgreiðslu. En það breytir ekkert skoðun minni sem er mjög lík skoðun þingmannsins, að við þurfum að bæta í þegar kemur að þróunarhjálpinni. Við höfum báðir séð það með eigin augum hversu miklu máli þeir litlu peningar sem verið er að veita í þessi mál skipta á vettvangi. Þar er verið að vinna geysilega gott starf þannig að ég held að við deilum í rauninni þeirri skoðun að þarna þurfi að bæta verulega í, en það gengur vissulega heldur hægar en menn ætluðu sér.

Þróunarmálin eru mjög ofarlega í hugum margra í dag, eðlilega, og sú neyð sem víða er í heiminum. Við munum því svo sannarlega þurfa að líta í eigin barm, Íslendingar og íslensk stjórnvöld, og núna við þessa fjárlagagerð varðandi hvar og hvernig við getum komið betur til móts við þær þarfir sem alls staðar blasa við okkur.