145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þó að við séum að setja dágóða peninga í þróunarsamvinnumálin breytir það ekki því að á þeim lið eru sett markmið um aðhald í útgjaldaramma á meðan verið er að auka við framlög í varnarmál.

Hæstv. ráðherra bendir á að það sé tilfærsla á peningum frá innanríkisráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins og að það fari í verkefni sem unnið er hérna heima, en ég velti fyrir mér: Er ekki miklu meiri ástæða til þess að í stað þess að setja þessa peninga í utanríkisráðuneytið verði þeir notaðir í það sem skiptir raunverulega máli, eins og að halda varðskipunum úti á miðunum, en ekki vera að grauta þessu saman við heræfingar og annað slíkt?

Hæstv. ráðherra kom inn á að í fjárlagafrumvarpinu væri líka gert ráð fyrir því að fjölga borgaralegum sérfræðingum undir merkjum NATO. Þar er meira að segja vísað til þess að það sé sérstök eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu Íslendinga, svo sem á sviði almannavarna, jafnréttis og öryggis á hafi. Hér er augljóslega um borgaraleg verkefni að ræða en ekki hernaðarleg. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það, en mig langar að spyrja hann: Hefði ekki verið skynsamlegra fyrir okkur Íslendinga sem herlausa þjóð, og það væri betri nýting á orku og fjármunum, að vinna ekki að slíkum verkefnum innan vébanda hernaðarbandalags? Hefur ráðherrann íhugað að nota þessa fjármuni frekar til þess að sinna sömu eða sambærilegum verkefnum á vettvangi þar til bærra alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna?