145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Örlítið í framhaldinu þá er auðvitað rétt í þessu samhengi að minna á að fyrir liggur af hálfu þingsins margra ára stefnumörkun um að efla þátttöku okkar í EES-samstarfinu. Það má rekja að minnsta kosti sjö, átta ár aftur í tímann að vilji hefur verið til þess að bæta vinnubrögð okkar í sambandi við EES-samninginn þannig að við getum annars vegar staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum en hins vegar líka nýtt okkur þá möguleika sem samningurinn gefur til þess að hafa áhrif á þá löggjöf sem síðar verður hluti af EES-samningnum og þar af leiðandi skuldbindandi fyrir Ísland.

Við höfum í þinginu og í utanríkismálanefnd þingsins fjallað mjög mikið um þessi mál á undanförnum tveimur árum og raunar lengur, fyrir mína tíð í þeirri nefnd. Það hefur verið viðleitni af hálfu bæði utanríkismálanefndar og reyndar annarra nefnda þingsins að fá upplýsingar um löggjöf í undirbúningi og mál sem eru í undirbúningi á vettvangi Evrópusambandsins í samvinnu við EFTA-löndin, EES-löndin, á fyrri stigum, og reyna með einhverjum hætti að hafa einhver áhrif á það hvaða stefnu sú löggjafarvinna tæki, sérstaklega auðvitað út frá hagsmunum Íslands.

Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að okkar stjórnkerfi og þar á meðal utanríkisþjónustan er fáliðuð miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum. Það hefur verið þannig í Brussel að sendiráð Norðmanna, sem sinnir sambærilegum störfum, er að minnsta kosti fimm sinnum fjölmennara en það íslenska þannig að möguleikar manna til að hafa áhrif í þessu sambandi (Forseti hringir.) eru takmarkaðir. Ég held að sú breyting sem hér er boðuð, þótt hún sé ekki mikil, þetta er ekkert risaskref, sé viðleitni í þá átt að bæta möguleika okkar á hagsmunagæslu á þessum vettvangi.