145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. EES-samningurinn er okkar hlið, það má orða það þannig, inn á einn stærsta markað heims þegar kemur að því að telja fólk og umsvif og mæla það. Því er mjög mikilvægt að vera okkar í þeim hópi sé gerð sem best og að við stöndum þá á sama tíma vörð um þá hagsmuni sem skipta okkur máli í öllu því samstarfi. Þess vegna er mjög mikilvægt að starfsemi okkar í Brussel sé sterk, sé virk og að við getum fylgst betur með. Við eigum ágætt samstarf við Norðmenn og Liechtenstein þegar kemur að innri markaðnum, þegar kemur að EES-verkefnum, en við þurfum samt að bæta töluvert í af okkar hálfu til þess að geta verið á þeim stað að geta sagt að þetta sé ásættanlegt fyrir okkur. Við erum ekki þar í dag.

EES-samningurinn, eins og ég sagði áðan, er okkar lykill að þessum markaði og það er mikilvægt að hann funkeri vel.