145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil í seinna slotti spyrja út í lið á bls. 305 sem kallast Mannúðarmál og neyðaraðstoð. Eins og kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra í dag gerir hún ráð fyrir að setja þurfi auknar fjárveitingar í ýmsa málaflokka sem snúa að útlendingamálum og neyðaraðstoð vegna flóttamannavandans og þar fram eftir götunum. Þetta slær mig sem nokkuð sem snýr beint að þessum málum, þessi liður, Mannúðarmál og neyðaraðstoð, sem hækkar aðeins á milli ára. Það er þó varla sjáanlegt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sjái, eins og hæstv. innanríkisráðherra, fyrir sér að meiri fjárveitingar þurfi inn á þennan lið og þá þurfi jafnvel að gera ráð fyrir því í fjárlagavinnunni fyrir 2. umr.

Ég veit að ýmislegt hefur gerst síðan þetta frumvarp var klárað og jafnvel bara síðan það fór í prentun. Ég hnýt um þennan lið en þeir gætu fleiri snúið beint að flóttamannavandanum sem við horfum á í dag. Ég spyr hvort það séu einhverjir fleiri liðir sem við getum gert ráð fyrir að ráðherra fari fram á auknar fjárheimildir til.