145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni fyrir ræðuna. Ef ég skildi þingmanninn rétt þá var hún að velta því fyrir sér hvort hafinn væri undirbúningur í Noregi og innan Evrópusambandsins fyrir þennan fund í desember (BirgJ: Nei, hjá okkur.) — hjá okkur. Jú, við erum að kanna leiðir, hvað við getum lagt af mörkum þegar kemur að loftslagsbreytingunum, hvar við getum fyllt upp í þessi 40% eða hver okkar hlutur verður innan 40%. Það er verið að semja um þessa hluti akkúrat þessa stundina í rauninni, bæði hvað varðar heildartöluna sem á að koma út, hvað menn ætla að gera o.s.frv.

Ég hef hins vegar bent á í ræðum mínum, þegar kemur að því hvernig við ætlum að fjármagna baráttuna gegn loftslagsbreytingum, hvernig við ætlum til dæmis að fjármagna það að berjast fyrir endurnýjanlegri orku o.s.frv., að á hverjum einasta degi, hugsið ykkur, eru veittir styrkir til olíu og kola upp á 14,5 milljarða bandaríkjadala. Það fara 10 milljónir bandaríkjadala á hverri einustu mínútu í styrki til þessara aðila. Það þarf ekki að hugsa það neitt lengi hvað mundi gerast ef við tækjum bara brot af því yfir í baráttuna gegn loftslagsvánni.

Við höfum lagt áherslu á hafið og við höfum lagt áherslu á gróðureyðingu í málflutningi okkar innan Sameinuðu þjóðanna nýverið og á öðrum vettvangi. Það er leitað til Íslands þegar kemur að ákveðnum málum, m.a. vegna þess að við erum hér með fjögur verkefni undir hatti háskóla Sameinuðu þjóðanna sem eftir er tekið.

Ég ætla bara að leyfa mér að segja frá því hér að nýverið var meðal annars óskað eftir því að við mundum kosta starfsmann til þess að vera innan stjórnar eyðimerkursamningsins svokallaða, þar sem verið er að berjast gegn landeyðingu, vegna þess að við höfum svo mikið fram að færa. Við munum að sjálfsögðu skoða það eftir því sem við getum. Við erum leiðandi þegar kemur að mörgum hlutum og erum beðin um að taka þátt í ýmsu samstarfi. (Forseti hringir.)

Ég er nokkuð bjartsýnn um að desember verði góður mánuður þegar kemur að loftslagsmálum en þar eru stærri lönd og aðilar sem þurfa að segja ýmislegt meira og eitthvað sem skiptir jafnvel meira máli en það sem við höfum fram að færa.