145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil sannarlega fagna því að meiri fjármunir eru veittir í utanríkisþjónustuna núna en verið hefur. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra sjálfs hefur verið þjarmað meira að því ráðuneyti á undanförnum árum en öðrum og ég er ekki viss um að það sé allt gjaldeyrinum að kenna. Ég held að það sé líka svolítið því að kenna að margir sem fara með fjárveitingavaldið í þessu landi eða stýra því hér í þinginu hafi ekki skilning á þýðingu utanríkismála og alþjóðasamvinnu.

Ég verð að segja að batnandi fólki er best að lifa vegna þess að ég held að ráðherrann sjálfur hafi mun meiri skilning á þessu í dag en hann hafði kannski fyrir tveimur eða þremur árum. Ég fagna því.

Ráðherrann ætlaði að leggja sérstaka áherslu á samninginn við EES og síðan kom í ljós að við höfum aldrei staðið okkur verr í að uppfylla það sem þarf að gera í þeim efnum. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort hann haldi að við stöndum okkur eitthvað betur í því núna og hvort við förum að geta verið í því samstarfi kinnroðalaust. Mig langar að spyrja ráðherrann: Hvað er það sem hann ætlar að fá fyrir þessar 32 milljónir? 32 milljónir eru ekki miklir peningar og 32 milljónir eru ekki miklir peningar í Brussel, það veit ég, ég bjó þar lengi. Það væri fróðlegt að vita hvað það er. Síðan er það ein spurning rétt í lokin: Hvar á skjalavinnslusafnið að vera á landinu?