145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ef það er stóra spurningin hvar skjalasafnið á að vera þá erum við í góðum málum. Eins og kemur fram í frumvarpinu þá viljum við fara með þessa vinnu út á land til þess að létta á þeim skrifstofum sem hafa verið að sinna þessu og eins til að skapa störf.

Eins og fram kemur í texta frumvarpsins, minnir mig, þá er meðal annars vísað í tillögur sem hafa verið varðandi svokallaða norðvesturnefnd og þess háttar þar sem óskað er eftir stuðningi við það landsvæði þannig að ég geri ráð fyrir að þetta verði á þeim slóðum einhvers staðar. Um það er hins vegar ekki búið að taka formlega ákvörðun.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir orðin varðandi utanríkisþjónustuna. Það er hárrétt og hv. þingmaður þekkir það vel hversu miklu máli skiptir að við höfum öfluga utanríkisþjónustu. Hún hefur vissulega verið skorin mikið niður.

Já, hv. þingmaður, ég hef öðlast betri skilning á utanríkisþjónustunni en ég hafði kannski fyrir tveim, þrem, fjórum árum. Batnandi mönnum er best að lifa í því efni held ég. Það breytir þó ekki því að ég hafði ákveðnar tilfinningar og skoðanir á því hvernig utanríkisþjónustan ætti að vinna og hún er að sjálfsögðu að vinna þannig í dag. Hvert við stefnum í utanríkismálum er hins vegar svolítið annað mál. Við verðum ekki alltaf sammála um það hver stefnan á að vera þegar kemur að utanríkismálum en ég held að um stóru myndina séum við býsna sammála.

Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir það leiðtogahlutverk að vinna hér þjóðaröryggisstefnu sem klárast vonandi nú í haust.

Við erum sannarlega að bæta okkur þegar kemur að því að uppfylla EES-samninginn. Það gengur hægar en við ætluðum okkur, alveg klárlega, en batnandi mönnum er best að lifa þar (Forseti hringir.) eins og þegar ráðherra öðlast meiri skilning á málaflokknum sínum.