145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir. Ég afsaka að hafa gleymt að svara þessari spurningu. Vonir mínar standa til þess að við getum fjölgað sérfræðingum í Brussel fyrir þessa fjármuni. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta eru frekar litlir fjármunir og það er alveg spurning hvað þeir duga fyrir mörgum, en það skiptir líka máli hvernig það verður útfært, hvort við sendum út sérfræðinga héðan frá Íslandi eða ráðum fólk annars staðar að o.s.frv. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það kostar töluvert mikið að vera með sérfræðinga í Brussel eða einhvers staðar annars staðar í okkar sendiráðum þannig að þetta eru ekki stórir peningar ef horft er til þess.

Ég hefði vitanlega viljað sjá þessa tölu þrefalt, jafnvel fjórfalt hærri til að geta farið strax í að uppfylla þá þörf sem ég tel að sé í Brussel út af hagsmunagæslu okkar. Það skiptir máli að við séum með sérfræðinga frá öðrum fagráðuneytum til að gæta þeirra hagsmuna sem þar eru undir. Því miður erum við ekki með sérfræðinga á öllum sviðum í Brussel í dag.