145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Ég byrja þar sem hún endaði. Það er ekki þannig að Vatnajökulsþjóðgarður sé algerlega óbættur hjá garði. Í fjárlagafrumvarpinu er bætt umsjón þjóðgarðsins með fjölgun landvarða svo ég nefni það dæmi.

Varðandi friðlýsingar og á grundvelli rammans þá segi ég bæði hvað varðar verndun sem og nýtingu að í gangi er verkefnisstjórn sem er með sína faghópa og vinnur hörðum höndum. Ég bíð eftir þeirra niðurstöðu bæði hvað varðar orkunýtingu sem og verndun og set hvorugt fram fyrr en ég fæ eitthvað í hendur frá þessari ágætu nefnd sem fyrrverandi umhverfisráðherra og hv. þingmaður, sem var með fyrirspurnina, setti á laggirnar.

Ég get sagt frá því að ég hef endurvakið það starf innan ráðuneytisins að fara enn og aftur yfir friðlýsingar hvað varðar Þjórsárver. Það er líka komin nefnd í gang að fjallabaki að vinna að víðtækari friðlýsingu þar. Það er ekki eins og ekki sé verið að huga að ýmsum málum. Svo vil ég benda á að í hlut stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins komu 534 millj. kr. í 58 verkefni nú í sumar af aukafjárveitingu ríkisstjórnarinnar á vordögum.