145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:25]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Umhverfismálin eru að verða einhver mikilvægasti málaflokkur okkar, bæði í efnahagslegu tilliti og stjórnmálalegu. Það hvernig þróunin er að verða í loftslagsmálum á jörðinni gerir það að verkum að þessi mál verða á næstu árum og áratugum í algerum brennidepli og munu koma mjög víða við á nær öllum sviðum sem við þekkjum og störfum eftir í samfélaginu í dag.

Mig langar að nefna tvennt þar sem ég tel að Ísland gæti verið í algerum fararbroddi í málaflokknum. Annað er varðandi orkuskipti í samgöngum en ég veit að núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra er að vinna samkvæmt áætlun sem var samþykkt á Alþingi, að mig minnir 2011, um orkuskipti í samgöngum. Það þýðir að við mundum láta af því að nota jarðefnaeldsneyti og leggja okkar af mörkum með því að taka upp eingöngu sjálfbæra, vistvæna orku til að knýja samgöngutæki okkar og mundi maður þá helst líta til rafmagns þrátt fyrir að allir kostir í þeim efnum yrðu skoðaðir. Þarna eru gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga bæði til að leggja nokkuð af mörkum og, eins og ég vil kalla það, leggja inn á þann tékkareikning sem allar þjóðir verða krafðar um að leggja eitthvað inn á til að koma í veg fyrir að við eyðum sjálfum okkur sem lífverum og mannverum á þessari jörð með því að ganga ekki um umhverfi okkar eins og skyldi.

Hitt sem mig langaði að nefna í þessu sambandi er súrnun sjávar. Ég var mjög ánægð að heyra að hæstv. umhverfisráðherra er akkúrat með þann málaflokk á borðinu hjá sér. Þar er einmitt í fæðingu þingsályktunartillaga sem ég stend fyrir ásamt fleirum um að sérstakt átak verði gert í því að rannsaka áhrif kolefna á súrnun sjávar og að Ísland taki sér forustuhlutverk í því sambandi, í þessu stóra loftslagsumhverfissamhengi, (Forseti hringir.) á alþjóðavísu. Ég vil kannski heyra nokkur orð frá hæstv. ráðherra um það hvað hennar ráðuneyti er að gera í þessum málum.