145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir góðar spurningar og fyrir það að deila með mér, sem er óvænt að fá í þessum þingsal, mikilvægi umhverfismála og því að nákvæmlega þessi málaflokkur er hvað mest í brennideplinum á alþjóðlega vísu. Við mættum huga oftar að því hér að þannig er það. Mér finnst stundum Íslendingar, og þá almennt en ekki einungis í þessum sal, ekki gera sér grein fyrir því hvað umhverfismálin eru víðfeðm, hvað þau snerta marga þætti hins mannlega lífs og að við Íslendingar getum látið gott af okkur leiða og þurfum að gera það.

Varðandi orkumálin gat ég nokkuð um það í ræðu minni að við þyrftum að setja okkur markmið eins og að rafvæða 5% af bílaflotanum til að reyna að sporna gegn notkun jarðefnaeldsneytis. En það er ekki síður mikilvægt þegar kemur að skipaflotanum okkar. Líkt og á mörgum sviðum er gríðarleg gerjun og nýsköpun í gangi þar sem vekur manni von, varðandi græna skipatækni sem hefur verið komið á laggirnar og eins og ég sagði hvað varðar tæknina. Það gæti verið skemmtilegt að geta séð það til framtíðar að við gætum til dæmis klárað rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja o.s.frv. til að reyna að draga úr þessu. Ég deili því algerlega með þingmanninum að hafið er eitt það mikilvægasta sem við höfum og við þurfum þess vegna að vera í fararbroddi þar með góðri umgengni og líka með stefnumörkun á öllum sviðum.