145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:35]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í nokkra þætti. Mér finnst jákvætt að verið sé að auka í til landgræðslu og skógræktar. Stundum gleymist hvað landgræðsla er gríðarlega mikilvæg á Íslandi, það er mikið um örfoka land. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað við erum feimin við að taka á ofbeit sem er í gangi á nokkrum svæðum á landinu, það eru dæmi um að verið sé að beita sauðfé á mjög viðkvæm svæði, og hvernig við getum stuðlað að sjálfbærri landnýtingu. Sauðkindin á mjög mikinn rétt á Íslandi, hún er einhvern veginn hluti af landinu og fær jafnvel að skottast um þjóðvegina þar sem hún á kannski ekki alveg heima. Er eitthvað verið að skoða hvort ríkið getur komið að því ef það þarf að girða? Hvernig standa þau mál? Mér finnst tvískinnungur í því að veita í einu orði fé í landgræðslu en horfa síðan með blinda auganu á ofbeit eða við getum sagt óskynsamlega nýtingu á landi, sem mér finnst eiga sér stað sums staðar.

Mig langar líka að spyrja út í loftslagsráðstefnuna í París. Ég sá ekki aðkomu umhverfisráðuneytisins í fjárlagafrumvarpinu en verð að viðurkenna að ég hef verið að fara yfir það á hundavaði. Hver er aðkoma umhverfisráðuneytisins að loftslagsráðstefnunni, sem ég held að við séum öll sammála um að sé gríðarlega mikilvægur fundur? Það skiptir máli að Ísland miðli þarna því sem við höfum gert, eða er þetta kannski mál sem er alfarið á forræði utanríkisráðuneytisins? Hvernig stendur það?

Ég held að ég láti þetta duga í fyrri ræðu.