145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágætar fyrirspurnir. Sannarlega er náttúra okkar viðkvæm, vaxtartíminn stuttur og þess vegna hefur hún ekki eins mikinn tíma til að endurnýja sig og í mörgum öðrum löndum. Hún er viðkvæmari en víða annars staðar.

Fræðsla er ætíð af hinu góða en ég vil samt segja það hér að ég er ekki ferðamálaráðherrann sem setur línur um ferðamennsku eða hvernig það á að vera. Ég hef tröllatrú á innviðafrumvarpinu sem verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum, ég mæli vonandi fyrir því þá. Þar verða kortlögð helstu svæðin okkar og hvað þarf að gera til að sporna gegn því að á náttúruna verði gengið eða hún raskist. Við viljum taka markvisst á þessum málum. Ég hef sem sagt tröllatrú á því að ef Alþingi samþykkir þetta innviðafrumvarp þá verði hægt að ráða strax verkefnisstjóra og hefjast handa við að gera úttekt á svæðunum og kortleggja nákvæmlega hvað þarf að gera til að náttúran raskist ekki.