145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Sannarlega hef ég áhuga á því að fræða. Það vill svo til að ég er formaður Þingvallanefndar. Við höfum sett fram stefnu og gert mikið af því síðustu tvö ár að koma upp fleiri fræðsluspjöldum. Við gerðum alveg sérstakt átak í því á þessu ári til að uppfræða ferðamenn. Ég veit að það hefur einnig verið gert víðar, svo sem í Vatnajökulsþjóðgarði. Vitaskuld verður og má ætíð gera betur. Ég held, eins og þingmaðurinn getur um, að eitt af því mikilvægasta sé að ferðamenn sem koma til landsins en ekkert síður Íslendingar kunni að ganga rétt og vel um okkar ágæta land. Við berum náttúrlega ekki síst þau svæði fyrir brjósti, sem hafa verið gerð að þjóðgörðum sökum sérstöðu sinnar.