145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir jákvæðar undirtektir. Þeim fjölgar stuðningsmönnum hér varðandi umhverfismálin. Skógrækt og landgræðsla er náttúrlega lykilþáttur og hefur verið lengi varðandi umhverfismálin. Við erum að reyna að bæta í aftur eftir nokkurra ára skeið niðurskurðar, við gerum okkur grein fyrir honum. Ég vona bara að áframhald verði á því að við getum bætt í þessa liði. Það kemur mönnum jafnvel á óvart hve skógrækt gefur mikið af sér eða getur gefið mikið af sér, er vaxandi atvinnugrein þannig lagað séð fyrir utan það að binda kolefni og það sem það bætir varðandi loftslagsmál og annað.

Ég vil samt segja það hér, af því að við erum að ræða um skógrækt, að auðvitað á að fara að öllu með gát. Af því að ég talaði um skipulagsmál þá þurfum við líka að vera dálítið meðvituð og sjá það fyrir hvar á að hefja skógrækt og hvernig hún fellur að landi og umhverfi. Við þurfum alltaf að hafa náttúruna með að leiðarljósi. Ég er til dæmis ein af þeim sem hafa girt fyrir ágætisútsýni með skógrækt, ég verð að viðurkenna það.

Varðandi landvörsluna, já, það má, eins og komið hefur fram hér fyrr, auðvitað betrumbæta hana. Við erum þó að bæta við á tveimur stöðum, bæði til Umhverfisstofnunar sem og Vatnajökulsþjóðgarðs um 32 millj. kr.

Hafið er í brennidepli, við skynjum hvað þarf að vakta það betur og stuðla að eflingu á vöktun og rannsóknum. Við sýnum því lit með því að bæta við fjármunum, eins og þingmaðurinn gat um, eða 51 millj. kr. fyrir næsta ár.