145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina yfir málaflokk hans. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þá staðfestu sem hann hefur sýnt varðandi uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins. Það er mjög mikilvægt að endurnýja húsnæði Landspítalans svo að við getum haldið áfram að vera með almennilegt sjúkrahús. Það grefur undan heilbrigðisþjónustunni á Íslandi ef sjúkrahúsið kemst ekki í viðunandi húsnæði. Ég þakka ráðherra sérstaklega fyrir þetta.

Síðan fagna ég því líka að verið sé að auka fjárveitingar í heilsugæsluna. Þar er ráðherra að vinna í samræmi við það markmið að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður. Þar er verið að fjölga stöðum heimilislækna og auka við möguleika til menntunar heimilislækna sem og að fá sálfræðinga inn í þjónustuna í auknum mæli til að hægt sé að vinna í teymum sem veiti betri þjónustu. Þessu ber að fagna og vildi ég byrja á því.

Þá kemur að blessuðum Landspítalanum sem í raun er að verða fyrir niðurskurði upp á 90 millj. kr. Það er vissulega verið að setja tæpar 400 milljónir í ný verkefni en á móti er skorið niður samkvæmt áætlun til tækjakaupa. Það sem ég hefur sérstakar áhyggjur af varðandi sjúkrahúsið er að það vantar um 1,5 milljarða í viðhald sem er bráðnauðsynlegt og svo vantar að gera ráð fyrir auknu álagi á sjúkrahúsið, sem er að verða vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og aukins fjölda ferðamanna. Ég vil því spyrja ráðherra hvort það verði við þetta unað, hvort ekki þurfi að auka fé inn í rekstrargrunninn á sjúkrahúsinu. Svo vil ég spyrja út í viðhaldið sem vantar og var haft eftir starfandi forstjóra Landspítalans í dag að það vantaði að minnsta kosti 1,5 milljarða.

Þá komum við hins vegar að sjúkratryggingum þar sem sjálfstætt starfandi sérgreinalæknarnir eru. Þar er verið að auka í um tæplega 1,2 milljarða. Ég vil spyrja ráðherra varðandi þetta hvort ekki þurfi að endurskoða það fyrirkomulag sem er á samningum við sjálfstætt starfandi lækna þannig að þar sé ekki opinn krani á meðan hin opinbera þjónusta, sem er hjartað í heilbrigðiskerfinu, fær ekki eðlilegar fjárveitingar í samræmi við vaxandi umfang.