145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er jákvætt að raunaukning hafi verið til spítalans enda gat það ekki verið öðruvísi eftir niðurskurðarskeið sem hafði staðið yfir í rúm tíu ár, ekki bara vegna hruns fjármálakerfisins og áhrifa þess á ríkissjóð heldur hafði verið aðhald á Landspítalanum alla 21. öldina. Það þarf samt sem áður meira fé. Það þarf að líta til þess að álagið er að aukast á sjúkrahúsið, að öðrum kosti mun þjónustustigið lækka, verkefnunum sem Landspítalinn getur tekið að sér mun fækka og fara í sjálfstætt starfandi rekstur og grafa undan heildstæðri heilbrigðisþjónustu. 250 þús. heimsóknir til sjálfstætt starfandi lækna eru margar heimsóknir og við eigum marga góða lækna. Það segir sig sjálft að við veitum fé í spítalann án þess að horfa til breytinga á þjónustuþörfinni en þessi hluti heilbrigðiskerfisins lifir sjálfstæðu lífi og fær alltaf, við vitum það úr fjáraukanum í gegnum tíðina, það sem upp á vantar í samræmi við þjónustuþörfina og lýtur því allt öðrum lögmálum en til dæmis Landspítali. Það segir okkur að þetta mun skekkja kerfið þannig að lokum að við gröfum undan heildstæðri heilbrigðisþjónustu. Hún er nógu brotakennd á Íslandi. Það hlýtur að vera markmið okkar að gera hana skilvirkari og tryggja að sérfræðiþekkingin hlutist ekki í sundur á mismunandi stöðum. Þess vegna fagna ég því að heyra að hæstv. ráðherra ætli að beita sér fyrir endurskoðun samningsins. Ég vil vita hvenær við megum eiga von á því og ég ítreka þá spurningu mína hvort hann telji ekki í raun og veru þörf á meira rekstrarfé inn á Landspítala og hvað hann segi um þá 1,5 milljarða sem vantar í viðhald.