145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina yfir það sem snýr að ráðuneyti hans. Ég vil taka undir það að að sjálfsögðu er ég ánægð með þá gríðarlega miklu fjármuni sem fara í heilbrigðismálin, ekki síst Landspítalann, en tek engu að síður undir þær áhyggjur sem komu fram hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um að þetta sé samt ekki nóg. Verkefnið sem ég held að við á þinginu verðum að fara í er að tryggja að nægir fjármunir fari til Landspítalans.

Það eru nokkrir hlutir sem mig langar að ræða hér um við hæstv. ráðherra, m.a. spurningin sem kom fram áðan um viðhaldið. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði að þörfin væri 1,5 milljarðar. Hvað er áætlað að setja í viðhald á þessu ári? Líkt og hæstv. ráðherra kom inn á er verið að hefja uppbyggingu á nýjum spítala en við þurfum auðvitað að hafa húsnæði undir þessa starfsemi þangað til nýr spítali er risinn. Ég held að allir séu sammála um að það verður að setja peninga í viðhald þar til sá nýi er risinn. Þess vegna spyr ég: Hvað er áætlað að setja í þetta viðhald og hvað telur hæstv. ráðherra sjálfur að þörfin sé mikil?

Ég fann það hvergi í frumvarpinu þannig að ég spyr ráðherrann jafnframt hvort ekki sé gert ráð fyrir neinum auknum fjármunum á næsta ári vegna þeirra biðlista sem hafa myndast vegna verkfalla síðustu missirin. Gerir ráðuneytið ráð fyrir því að starfsemin komist í eðlilegt horf á þessu ári? Ég veit að biðlistarnir sem hafa myndast og það hversu langan tíma það tekur að komast í nauðsynlegar aðgerðir veldur fólki eðlilega talsverðum áhyggjum.

Að lokum fagna ég áherslu hæstv. ráðherra á heilsugæsluna og fagna því sérstaklega að þar eigi sálfræðingar að koma inn. Annars vegar kemur fram á bls. 387 að það eigi að hækka framlög til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hins vegar er á bls. 390 lagt til að heimilt verði að millifæra af þessum lið, (Forseti hringir.) Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, út á landsbyggðina og þá spyr ég ráðherrann: Hvað situr í rauninni eftir hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu?