145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er ýmislegt sem ég skil betur eftir ræðu hans og það er gott.

Auðvitað þarf að styrkja heilsugæsluna úti um allt land. Ég held hins vegar að það sé engin spurning að þjóðin öll vill líka núna þegar landið er að rísa eftir kreppuna, eins og margumtalað er, að fjármunum sé forgangsraðað inn í heilbrigðiskerfið, inn í velferðarkerfið, og auðvitað hlýtur þá þjóðarsjúkrahúsið sjálft sem þjónustar landið allt, er náttúrlega spítali okkar á höfuðborgarsvæðinu en líka spítali þeirra sem búa úti á landi, að þurfa að fá næga fjármuni. Peningunum þarf að ráðstafa þangað inn til að það geti rekið sig svo sómi sé að.

Mér finnst við ekki geta horfið út úr þessari umræðu hérna án þess að koma aðeins inn á S-merktu lyfin. Það hefur mikið verið rætt um það í samfélaginu að þar sé ástandið óviðunandi og að í rauninni sé búið að kvótasetja S-merktu lyfin þar sem komin er fjöldatakmörkun þó að læknisfræðilegar orsakir fyrir því að fólki sé vísað á þau lyf séu fyrir hendi. Þannig á það auðvitað ekki að vera í heilbrigðiskerfi sem við viljum hafa í fyrsta flokki.

Mig langar þess vegna að spyrja út í texta og töflu á bls. 378 þar sem annars vegar er sagt að gert sé ráð fyrir aukningu (Forseti hringir.) frá fjárlögum nema í S-merktum lyfjum þar sem gert er ráð fyrir meiri raunvexti, en í töflunni á sömu blaðsíðu er hins vegar ekki annað að sjá en að það sé samdráttur upp á 0,2%. Getur hæstv. ráðherra útskýrt þetta fyrir mér?