145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst að þessu síðasta. Ég rak augun í þetta líka og gerði fyrirspurn um það. Það er gert ráð fyrir 3% magnaukningu í S-merktu lyfjunum og þá kemur á móti útreikningur á gengisbreytingum sem unninn er miðlægt í fjármálaráðuneytinu sem reiknar þá inn gengisbreytingar sem valda því að verðið sem ætlað er til að kaupa ákveðið magn af lyfjum lækkar. Það er fyrst og fremst það sem er þarna á ferðinni, ekki það að við séum að draga úr kaupum á lyfjum, alls ekki. Það er bara lægra verð á þeim á þessu gengi.

Ég hef sömuleiðis áhyggjur af þessum svokölluðu S-merktu lyfjum. Ég var á fundi í fyrradag úti í Kaupmannahöfn með norrænum heilbrigðisráðherrum þar sem við ræddum meðal annars þessi mál. Ég óskaði eftir samstarfi við Norðmenn og hef átt ágætisviðræður við heilbrigðisráðherra Norðmanna um þessi efni. Áhyggjur norrænu landanna eru allar þær sömu, hið mikla ægivald lyfjafyrirtækjanna, lyfjarisanna, á framleiðslu sinni og markaðssetningu. Mín skoðun er sú að til þess að við getum náð betri tökum á þessu, staðið okkur betur í þessum málaflokki, verðum við að gera tvennt. Í fyrsta lagi verðum við að breyta lögum um opinber innkaup. Eins og þau eru núna koma þau í veg fyrir að við getum komist í samstarf með öðrum löndum.

Hitt atriðið er að við komumst inn í útboð norrænu landanna. Ég ætla að nefna bara eitt lítið dæmi, kaup á gigtarlyfi. Við Íslendingar kaupum ákveðna tegund af gigtarlyfi fyrir 1 milljarð kr. á ári. Ef við hefðum komist inn í síðasta útboð Norðmanna hefðum við sparað 700 milljónir. Það hefði kostað okkur 300 millj. kr. og við hefðum getað nýtt þessar 700 milljónir til að taka upp önnur ný lyf o.s.frv. Það er grundvallaratriði í mínum huga varðandi lyfin að við getum breytt lagaumhverfinu og komist í samstarf við Norðurlöndin á þessu sviði.