145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innlegg hans í þessa umræðu, hann vekur athygli á mjög mikilvægu máli. Vilji okkar hefur staðið til þess að gera betur á þessu sviði en gert hefur verið og við höfum meðal annars í þeim tilgangi fært fjármuni til samkvæmt því litla svigrúmi sem við höfum haft innan ráðuneytisins og er sérstakur liður merktur, ég man í svipinn ekki heitið á honum, vinnu í því efni.

Við erum sömuleiðis að styrkja heilsugæsluna í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir, sem gerir meðal annars kleift að taka á málum, og við höfum verið að reyna að leggja Þroska- og hegðunarmiðstöðinni lið við þetta verkefni. En það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að biðlistarnir eru að lengjast. Ég hef heyrt í fagfólki í þessum geira sem spyr sig líka hvernig á því standi og vitneskjan um það af hverju þetta er að gerast er ekki mikil. Menn hafa ákveðnar grunsemdir um að líka sé verið að kasta börnum á milli stjórnsýslustiga, frá skóla og sveitarfélögum yfir til heilsugæslu og svo öfugt, og ef hlutirnir ganga með þeim hætti er það algerlega óviðunandi að mínu mati. Upplýsingin um það hvernig stendur á hinum aukna fjölda, hvað sé að baki honum, er því greinilega, eftir fagfólkinu, ekki nægilega traust til að geta fullyrt mjög mikið í þá veru.

En vilji okkar, svo ég segi það í mínu stutta svari hér, stendur til að gera þetta betur en gert hefur verið og í þeim tilgangi höfum við nýtt þær takmörkuðu uppsprettur sem við eigum inni á safnliðum ráðuneytisins.